Frekjukast í flugtaki

Sumar auglýsingar vekja athygli, þótt þær hitti alls ekki í mark. Icelandair auglýsti nýlega „heimili þitt í háloftunum“ í krúttlegum sjónvarpsauglýsingum. En sannleikurinn er sá að ef það er einhver staður þar sem mér líður ekki neitt eins og ég sé í sófanum eða rúminu heima hjá mér, þá er það kramin í sæti í röri í háloftunum. Það er fátt þægilegt við flugsæti. Það er með ólíkindum að fólk yfir 1.70 á hæð geti yfirleitt ferðast með flugvélum. Ég er nú með meðalstuttar fætur en þær ná yfirleitt nánast í bakið á næsta sæti. Og ef maður er óheppin er sessunauturinn í yfirstærð og flæðir yfir á manns nokkurra sentimetra yfirráðasvæði. Eða það er grenjandi barn fyrir aftan mann. Olnbogar rekast saman við ókunnuga þegar maður sker kjúklinginn eða fiskinn (yfirleitt sér maður engan mun). Já, heimili þitt í háloftunum er sannarlega ekki það sem 99.9% af fólki hugsar þegar það sest í þröng sætin. Hin 0.01% geta breitt úr sér í einkaþotum. Því miður tilheyri ég ekki þeim hópi!
Öll eigum við sögur um hræðileg flug. Ég flaug einu sinni í tólf tíma frá Kenya til Íslands og öll klósett voru orðin stífluð, enginn matur var til í vélinni og vatnið búið. Tvisvar var millilent en ekki var hægt að ná í vistir, ó nei. Í annað sinn sat ég með eldri konu frá Kambódíu nánast í fanginu. Hún sat í sínu sæti en af einhverjum ástæðum sá hún sig knúna til að halla sér í áttina að mér, fara algjörlega inn á mitt „personal space“ og þar hékk hún bara. Ég þurfti að halla mér svo langt í hina áttina út á gangveginn að ég var í stórhættu á að verða fyrir þjónustuvagninum. Ekki skil ég af hverju hún gat ekki hallað sér í hina áttina, og legið utan í kallinum sínum! Hann var kannski svona leiðinlegur.
Svo var það skiptið sem sessunautur minn hóstaði grænni slímslummu yfir á matarbakkann minn, það var virkilega skemmtilegt! Eða þegar þá tveggja ára sonur minn tók frekjukast í flugtaki af því hann var festur við mig með belti og öskraði svo mikið að hann ældi yfir mig alla. Það var bara eftir millilending og annað flug þann daginn. Og ekki tekur maður með aukaföt í flug fyrir sig. En maður þarf að þola þetta allt búandi á eyju. Ég skal hætta í þessu frekjukasti....og þakka fyrir að geta flogið til útlanda annað slagið. Og svo hefur maður þá alltaf einhverjar góðar sögur, því svona ævintýri gerist bara í flugferðum!



Fyrsta sjokk ársins

Nýja árið byrjaði hjá mér, sem og svo mörgum öðrum, með því að vekjaraklukkan hringdi og fyrsta hugsunin var; hvaða djöfulsins hávaði er þetta um miðjar nætur! En jú, það var víst kominn annar janúar og ekkert annað í stöðunni en að horfast í augu við blákaldan hversdagsleikann, drífa sig í sturtu og skola burtu stírurnar. Fögur fyrirheit fóru í gegnum hugann. Nú skal sko spýta í lófana. Mæta í ræktina. Sleppa sykri, hveiti og rauðu kjöti, ekkert hálfkák í þetta sinn. Hljómar þetta kannski kunnuglega? Klisja, gömul tugga? Já, það er ekkert nýtt undir sólinni.

Ég horfði sljóum augum á hvítu baðvigtina. Hún hafði ekkert verið notuð í nokkra mánuði. Ég er alveg eins og strúturinn sem stingur höfðinu heimskur í sandinn. En það er nýtt ár og nýtt upphaf og þessi strútur ákvað að reisa aðeins höfuð upp úr sandinum. Kíkja smá. Best að stíga á helvítið áður en ég færi í sturtuna, blautt hár gæti jú kostað einhver grömm, hugsaði ég. Stund sannleikans rann upp og þurfti ég án gríns að stíga tvisvar, hrista hana aðeins á milli og setja upp sterk lesgleraugu. Talan sem blasti við í eldrauðum og illkvittnum stöfum var það há að ég fékk mesta sjokk þessa árs. Hingað til. Skrítið hvað ég var hissa. Miðað við allt sem ég hef leyft mér undanfarna mánuði þá ætti þetta ekkert að koma mér á óvart. En alltaf held ég að á einhvern undraverðan hátt muni líkami minni ekkert vera að spá í þessar auka kaloríur; á einhvern undraverðan hátt mun almættið sjá til þess að ég sé eina manneskjan í heimi sem get troðið í mig kökum og kræsingum og ekki fitnað. Að ég uppskeri ekki eins og ég sái. En enn á ný, var eins og ég fengi kalda vatnsgusu í andlitið. Ég stóð allsnakin á vigtinni og öskraði innra með mér. Fokk fokk fokk.

Ég át bara brokkólí og blómkál í hádeginu. Skrifa veganuppskriftir í næsta blað. Þamba vatn við skrifborðið. Ég sendi skilaboð á einkaþjálfarann sem ég hafði ekki séð í hálft ár og grátbað hana um að gera eitthvað. Komdu í mælingu á föstudaginn, hlakka til, var svarið sem ég fékk. Ég get alveg viðurkennt það, að tilhlökkunin er öll hennar megin.

Af hverju læri ég aldrei af reynslunni? Af hverju byrja öll ár eins? Ég skrifa þetta allt á mannlegan breyskleika. Er það ekki bara fínasta afsökun? Gleðilegt heilsusamlegt ár !


Iðrasinfónía í bíó

Í síðustu viku ákvað Þorbjörg að við ættum að lifa á fljótandi næstu daga, allt upp í sjö daga. Misjafnt var hvað fólk treysti sér í en ég ákvað að reyna við fimm daga. Skyldi detoxið byrja á laugardegi þar sem ég var að fara í afmælissaumaklúbb á föstudagskvöldinu. Mér fannst of hallærislegt að sitja þar með djús í flösku þegar boðið var upp á kvöldmat. Alla vega, saumaklúbburinn klikkaði ekki frekar en venjulega og var hlegið til miðnættis. Það var kjúklingur og salat í matinn sem var alveg innan skekkjumarka hvað má borða í þessu aðhaldi, nema ég sá glitta í smá fetaost í réttinum. Eftirmaturinn var verri. Eða betri, eftir því hvernig litið er á það. Það voru súkkulaði brownies toppaðar með hnetum af einhverju tagi. Nammi! Ég sem hafði ekki bragðað sykur þarna í þrjár vikur ákvað að hrasa um stund, vitandi að handan við hornið beið mín fimm daga hreinsun. Hrösunin var unaðsleg og sæta súkkulaðibragðið dásamlegt. Ég fann samt alveg strax að maginn var ekki jafn sáttur og munnurinn, en stundum fær munnurinn að ráða. Maður tekur þá bara afleiðingunum. Don´t do the crime if you can´t do the time. Er það ekki sagt í Ameríkunni?
Jæja, svo leið að laugardegi og þá hófst þessi blessaða úthreinsun eða hvað þetta kallast. Í volgt vatn var blandað epsom salti, ólífuolíu og sítrónusafa. Vægast sagt algjör viðbjóður! Þessu var rennt niður og smjörkaffið og vítamínin á eftir. Síðan var beðið. Og beðið. Skruðningar og læti í maga og síðan tíðar ferðir á klósett. Við förum ekkert nánar út í það! Þetta tók hálfan daginn og naut ég þess að horfa á seríuna Shameless á milli þess sem hlaupið var. Djúsar og prótínsheikar var eina fæðið. Svona leið þessi dagur og sá næsti, sem var eiginlega Groundhog day.

Mér fannst vinir mínir á facebook ekkert vera að sýna mér tillitsemi þessa helgina. Það voru ekkert nema matarmyndir! Það var verið að pósta Líbönskum mat frá London, súkklaðiköku og ís með berjum og miklum rjóma svo eitthvað sé nefnt. Ég var farin að láta mig dagdreyma um ýmsar tegundir matar sem ég borða ekki einu sinni, nema kannski einu sinni á ári. Fékk gríðarlega löngun í KFC kjúkling til dæmis. Löðrandi í fitu! 

Ég get alveg sagt ykkur að ég hef lifað skemmtilegri helgi. Á sunnudagseftirmiðdag var ég orðin svo leið á að hanga heima nálægt klósetti að ég sendi út boð á vinkonur að koma í bíó. Ákváðum við að skella okkur á LaLaLand. Ég valdi mér sæti við gangveginn svo ég gæti hlaupið ef svo bæri undir. Þetta voru ákveðin mistök. Myndin var tveir og hálfur tími og allan tímann ólgaði í maganum með tilheyrandi skruðningum. Sem betur fer var myndin söngvamynd og heyrðist því minna í minni iðrasinfoníu. Mánudagurinn leið á djúsum og prótíndrykkjum en sem betur fer þurfti ég ekki að drekka saltblönduna og gat því mætt til vinnu. Skapið var samt ekki upp á það besta. Ég var líka undarlega viðkvæm og gat tárast við minnsta tilefni; kannski vorkenndi ég sjálfri mér að mega ekki borða humarbökuna úr Saffran sem ég bar á borð fyrir drengina mína. Það var alveg eitthvað til að gráta yfir!
Klukkan ellefu um kvöldið sprakk ég á limminu. Laumaðist niður í eldhús og sauð mér tvö egg. Hugsaði með mér að linsoðin egg eru nánast fljótandi. Þetta var borðað eins og egg hafa aldrei áður verið borðuð. Þau voru svo góð!
Ég vaknaði svo á þriðjudegi eftir svefnlausa nótt og saup á svörtum safa. Nú verður foringinn ekki sáttur en þetta var svo vont að ég frussaði þessu í vaskinn. Ég er kannski of mikil prinsessa eða eitthvað en ég bara gat ekki drukkið þennan drykk sem minnti helst á sjávarsand. Ég fór í vinnuna og ákvað að nú væri detoxið mitt búið! Fimm dagar urðu þannig að þremur. Úps!
En auðvitað held ég áfram í hinu; sykurlaust, hveitilaust og mjólkurafurðalaust. Eitt er ég sátt við; beltið á buxunum er laflaust og 3.5 kíló farin frá áramótum. Áfram með smjörið!


Miðlífskrísan nær hámarki

Miðlífskrísan mín er að ná hámarki þessa dagana. Enda líður senn að því að sá dagur rennur upp þar sem ég verð komin á sextugsaldurinn. Það ætti auðvitað að banna að kalla þetta sextugsaldur, en ég reyni að hugga mig við að „60 is the new 40“, þannig er þá ekki „50 the new 30“? Ég vona það. Ef ykkur finnst ég sjálfhverf í þessum pistlum þá er mér bara alveg sama. Ég er að reyna að sýna öðrum stuðning. Því það eru margir sem kannsast við miðlífskrísur, auka kíló hér og þar, hrukkur og grá hár,dapra sjón og ýmislegt fleira sem fylgir. Sumir díla við þetta með því að kaupa sér sportbíl eða fá sér yngri maka. Ég læt mér duga að tuða í ykkur. Og hamast eins og hamstur á hjóli í ræktinni, ét vítamín, bætiefni og grænt gras í bílförmum. Omega 3 fyrir heilann og veitir kannski ekki af. Allt til að halda í hratt dvínandi æskuljómann. Ég ætti kannski að sætta mig við þetta og fara að kaupa mér föt í Verðlistanum. Eða Lífstykkjabúð inni, en mér skilst reyndar að hún sé bara nokkuð smart. Ég heyrði það reyndar frá konu á mínum aldri. Nýlega fann ég nýja hrukku á efri vörinni. Hún leit út eins og djúp sprunga. Almannagjá jafnvel. En ég var jú að skoða hana í stækkunarspegli. Hver hannaði eiginlega þessa stækkunarspegla? Ég vil tala við þann mann! Það hlýtur að vera einhver masókismi hjá okkur konum að vera sífellt að skoða á okkur andlitið í þessum speglum. Eina vandamálið er að ef ég nota hann ekki til þess að mála mig, sé ég ekki neitt og myndi stinga maskaranum beint upp í augað á mér! Því það er auðvitað ellifjarsýnin sem er að hrjá mig líka.

Eftir að hafa verið rúma viku í sjálfskipuðu sykur- og hveitibindindi var ég mönuð á námskeið hjá næringarþerapistanum Þorbjörgu Hafsteins og beðin um að blogga um reynslu mína af þessu fjögurra vikna námskeiði. Mér fannst það nú ekki mikið mál og sá fyrir mér eitthvert lítið blogg neðst á Smartlandi sem líklega enginn myndi lesa nema miðaldra kellingar eins og ég. En nei, þar sem ég lá uppi í rúmi klukkan hálftíu eitt kvöldið, því auðvitað þarf kona á mínum aldri að fara snemma í rúmið,fékk ég skilaboð frá vinkonu: „Ekki vissi ég að þú værir á heilsunámskeiði, láttu mig vita hvernig gengur, ég þarf svo að missa 20 kíló.“ Ég skrollaði yfir á mbl.is og beint á Smartlandið og viti menn, þar blasti undirrituð við svo um munaði. Ég fékk hland fyrir hjartað. Andlitið á mér var þar smurt yfir forsíðuna, svo stórt að sást í svitaholur. Og yfirskriftin var: Langar að missa nokkur kíló fyrir fimmtugt.Jesús. Ekki nóg með að nokkrir miðaldra lesendur blaðsins, sem þennan pistil lesa, viti að ég sé að verða fimmtug og sé í krísu, nei, nú átti heldur betur að láta þjóðina vita! Takk Marta Smarta! Ég kemst aldrei á deit. Eigum við ekki bara að birta þetta í New York Times?


Alveg ljómandi góð byrjun!

Ég byrjaði árið svipað og í fyrra, með því að taka fyrstu vikurnar sykur- og hveitilausar. Nú hef ég tekið verkefnið upp á næsta stig og er komin á námskeiðið Ljómandi 13 hjá Þorbjörgu Hafsteins og ætla að reyna að massa þetta. Leyfi ykkur að fylgjast með hér!

Mætti galvösk og stundvíslega á fyrsta fyrirlestur á miðvikudaginn var og settist á fremsta bekk með penna og blokk í hendi. (Hef breyst í kennarasleikju á efri árum, annað en á unglingsárum þegar maður settist helst aftast!) Í salnum voru í kringum 30 konur og einn karlmaður. Greinilegt að konur eru duglegri að taka sig í gegn en námskeiðið snýst um að huga að hollu mataræði og er það auðvitað hið besta mál. Allir í salnum áttu að kynna sig lauslega og nefndu margar að það væri sykurpúkinn sem væri að gera þeim lífið leitt. En það virðist jú vera sykur í nánast öllu þessa dagana og nauðsynlegt að lesa vel innihaldslýsingar. Það leynist sykur í alls kyns vörum sem maður hélt alltaf svo hreinar!

 

Í hléi var ég auðvitað glorhungruð (enda kvöldmatartími) og fórum við niður í Yogafood á Oddsson þar sem námskeiðið er haldið. Þar valdi ég mér heilsusamloku sem var svo holl að það hálfa væri nóg. Brauðið var gróft (hveiti- og glútenlaust, ég veit ekkert hvað var í því!)og nánast svart og út úr þessu stóðu baunaspírur sem ég held að voru enn að vaxa. Mér fannst fyrsti bitinn ekkert góður en það undarlega var að þegar ég var kominn aðeins innar í samlokuna fór mér að finnast hún bara nokkuð góð! Vont en það venst eins og maður segir. En ég myndi svona að öllu gríni slepptu alveg borða hana aftur! Ég var södd og sæl eftir hana. 

En alla vega, þá var fyrsta verkefni að taka út sykur, hveiti og allt glúten, rúg, hafra og allar mjólkurvörur, nema smjör og rjóma! Alvöru kúr! Ég hafði smá áhyggjur af kaffileysi en það var ekki eins slæmt og ég hélt. Þorbjörg sagði okkur að drekka smjörkaffi á morgnana en þá hitar maður kaffi og blandar við það í blandara, eina matskeið af smjöri og eina af kókósolíu (mæli með bragðlausri, annars er svo mikið kókósbragð af kaffinu). Nú, eftir 3 daga er ég farin að fíla þetta kaffi en þar sem Þorbjörg leyfir aðeins 1-2 bolla þá valdi ég auðvitað lang stærsta bollann sem ég á! 

Það er alveg mesta furða hvað hægt er að velja góðan mat þrátt fyrir að sleppa mörgu sem maður er vanur. Um helgina til dæmis steikti ég nautakjöt og hafði með brokkóli og fékk mér smá slettu af bernaise sósu með. Það er jú bara smjör og egg í bernaise og það má! Svo er avókadó alltaf gott og svo saðsamt en mér finnst nóg að skera það í tvennt, kreista sítrónu yfir og salta. Þetta er lostæti og ekki verra að hafa linsoðin egg með og þarna er kominn góður hádegismatur.

Ég fór svo og keypti vítamín og alls kyns bætiefni sem voru á listanum. Keypti ekki allt en allt sem Þorbjörg sagði alveg nauðsynlegt. Nú gleypi ég fullt af töflum og drekk með því grænan ógeðisdrykk sem á víst að uppfylla grænmetisþörf dagsins. En þetta er ekki svo slæmt að maður komi honum ekki niður og mér skilst það sé hægt að blanda honum út í boost. Ég á eftir að prófa það.  

Í gærkvöldi langaði mig ægilega í eitthvað sætt og fékk mér 3 litla bita af dökku súkkulaði sem ég keypti í heilsuverslun og er það sykurlaust en sættað með stevíu. Á eftir að spyrja foringjann hvort það sé leyfilegt. En ég afrekaði að fara í bío og sleppa poppinu! Sonur minn bað mig um að halda á pokanum sínum og ég var næstum búin að fá mér "bara eitt" en hætti við því eins og allir vita er ekkert hægt að fá sér bara eitt popp! 

Mér skilst að eftir næsta fund verður matseðillinn aðallega í fljótandi formi! Það verður fróðlegt að prófa það! Mér líður a.m.k. ljómandi vel af þessu enn sem komið er. Þetta er áskorun og þá er bara að standast hana. Þetta eru jú bara fjórar vikur sem ég hlýt að lifa af! Og vonandi rennur eitthvað af manni í leiðinni þó það sé kannski ekki aðalatriðið. Mér finnst frekar aðalatriði að læra um hvaða matur gerir manni gott..... og reyna svo að tileinka sér það smátt og smátt. 

Þá er bara að fara í afmæli í dag og horfa á hina gæða sér á sykruðum kökum! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband